Innlent

Ávinningur að skrá ekki sambúð

Ávinningur fyrir par með þrjú börn af því að skrá sig ekki í sambúð gæti numið tæplega einni milljón króna á ári. Ásta Kristjánsdóttir, hjá Ríkisskattstjóra, skrifar um skattlagningu sambúðarfólks í Tíund, sem er fréttablað Skattstjórans. Hún tekur dæmi um Jón og Rósu sem eru í sambúð og eiga þrjú börn. Þau eru samtals með 6,3 milljónir í tekjur á ári, og skulda tíu milljónir í íbúð sinni. Ef þau eru skráð í sambúð geta þau valið um samsköttun eða ekki. Það er ávinningur fyrir þau að óska samsköttunar, því þá sleppur Jón við að borga 96 þúsund króna hátekjuskatt, þar sem Rósa er með lægri tekjur. Það er hinsvegar mestur ávinningur fyrir þau að vera ekki skráð í sambúð. Rósa væri þá skráð í þjóðskrá sem einstætt foreldri. Þá fengi Rósa barnabætur og vaxtabætur upp á 874 þúsund krónur. Hér er ekki talinn inn í annar ávinningur fyrir þau að skrá sig á þennan hátt í þjóðskrá, eins og að einstæðir foreldrar greiða lægri leikskólagjöld. Ásta segir þetta enduspegla þá freistingu sem sambúðarfólk stendur frammi fyrir í tengslum við skráningu í þjóðskrá. En það er erfitt að sanna svona nokkuð á fólk, og það krefst umfangsmikilla rannsókna. Ásta segir þó að þrátt fyrir það megi ekki leggja árar í bát, rannsaka verði málin og láta reyna á refsingar, því það hefði sterkt forvarnargildi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×