Ríkisútvarpið var í Hæstarétti í dag sýknað af kröfu um brot á friðhelgi einkalífsins. Um er að ræða sjónvarpsþáttinn Sönn Íslensk sakamál sem sýndur var í sjónvarpinu í mars árið 2002 og byggði á atburðum Stóragerðismálsins svokallaða.
Þar var Þorsteini Guðnasyni ráðinn bani á óhugnanlegan hátt. Það var eiginkona Þorsteins og synir þeirra tveir sem stefndu Ríkisútvarpinu.
Þorsteinn var stöðvarstjóri á bensínstöð Esso í Stóragerði og varð fyrir árás tveggja manna árið 1990, sem leiddu til andláts hans. Mennirnir tveir voru ákærðir og dæmdir til fangelsisrefsingar á sínum tíma.
Málsókn áfrýjenda var á því reist að með því að sýna þáttinn hafi Ríkisútvarpið brotið gegn friðhelgi einkalífs þeirra, en harkalega hafi verið vegið að þeim eins og fjallað hafi verið um efnið í myndinni.
Hæstiréttur staðfesti hinsvegar fyrri dóm héraðsdóms þar sem Ríkisútvarpið er sýknað.