Innlent

Fagnar niðurstöðu Kirkjuþings

Frá fundi Kirkjuþings í morgun.
Frá fundi Kirkjuþings í morgun. MYND/Stöð 2
Kristín Þórunn Tómasdóttir, ein þeirra sem lögðu fram tillögu á Kirkjuþingi um að prestum Þjóðkirkjunnar verði heimilt að vígja staðfesta samvist samkynheigðra, fagnar niðurstöðu Kirkjuþings í dag. Þingið samþykkti tillögu biskups sama efnis en tillaga Kristínar og félaga var dregin til baka.

Aðspurð hvers vegna tillagan hafi verið dregin til baka segir Kristín Þórunn að það hafi verið vegna þess að tillögurnar tvær hafi verið efnislega samhljóða. Hún og fleiri hafi sent inn tillögu sína fyrir 19. september eins og reglur gerðu ráð fyrir en með því hafi þau viljað tryggja að málið yrði tekið fyrir á Kirkjuþinginu. Biskup hefði lagt fram sína tillögu litlu seinna en það hefði honum verið heimilt samkvæmt reglum Kirkjuþings.

Mjög stórt skref miðað við hvað skoðanir eru skiptar

Í tillögu biskups, sem samþykkt var, er gert ráð fyrir að þjóðkirkjan standi við hefðbundinn skilning á hjónabandinu sem sáttmála karls og konu. Nokkuð var deilt um þann hluta tillögunnar á Kirkjuþingi á mánudag og segir Kristín að hún og fleiri hafi ekki viljað loka á umræðu um skilgreiningu á hjónabandinu. „Eftir samræður og samtöl sættumst við hins vegar á tillögu biskups og við ákváðum að láta þetta ekki koma í veg fyrir þetta stóra skref sem staðfest samvist samkynhneigðra er. Þetta er mjög stórt skref og miðað við það hvað það eru skiptar skoðanir um málið. Þetta er sannarlega gleðidagur," segir Kristín.

Aðspurð segir Kristín að næsta skref í málinu sé að Alþingi breyti lögum á þann veg að prestum verði heimilt að staðfesta samvist samkynhneigðra. „Þessi tillaga þýðir að samkynhneigðir fá fulla kirkjulega þjónustu líkt og gagnkynhneigðir. Við bíðum bara eftir að Alþingi breyti lögunum," segir Kristín Þórunn Tómasdóttir, héraðsprestur í Kjalarnessprófastsdæmi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×