Innlent

Kona í haldi grunuð um íkveikju

Kona á fertugsaldri er í haldi lögreglunnar í Vestmannaeyjum grunuð um að hafa kveikt í íbúð sinni síðdegis í gær.

Síðdegis í gær var lögreglunni í Vestmannaeyjum tilkynnt um eld að Hilmisgötu 1 og var jafnframt slökkvilið Vestmannaeyja kallað út. Greiðlega gekk að slökkva eldinn, en ljóst að töluverðar skemmdir hafa orðið á íbúðinni sem er á annarri hæð hússins.

Engin var í íbúðinni þegar eldsins varð vart en fljótlega vaknaði grunur um að um íkveikju væri að ræða og var húsráðandinn, kona á fertugsaldri, handtekinn grunuð um að hafa kveikt í íbúðinni.

Konan er enn í haldi lögreglu og bíður yfirheyrslu, en hún var undir áhrifum áfengis þegar hún var handtekin.

Ákvörðun um hvort krafist verður gæsluvarðhalds yfir henni verður tekin síðar í dag.

Óskað var eftir aðstoð tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og eru sérfræðingar frá tæknideild væntanlegir með Herjólfi til Vestmannaeyja í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×