Innlent

Vill ekki tjá sig um uppsagnir

Eimskipafélagið hefur eignast Skipafélag Færeyja. Viðskiptin eru metin á rúma tvo milljarða króna. Forstjóri Eimskipa segir mikil samlegðaráhrif og hagræðingu fylgja samruna fyrirtækjanna, en vill ekki tjá sig um uppsagnir á næstunni. Forstjóri Eimskipa segir að aðdragandi þessa samruna sé mjög stuttur. Fyrstu fundir hafi verið síðari hluta júlímánaðar og gengið hafi verið frá samningum um síðustu helgi. Í fréttatilkynningu frá Eimskipum segir að núverandi hluthöfum Skipafélags Færeyja hafi verið greiddar 100 milljónir danskra króna, það eru um 1100 milljónir íslenskra auk 6 prósenta hlutar í Eimskipum. Sérfræðingar á fjármálamarkaði segja ekki óvarlegt að áætla það um milljarðs virði og því hefur Eimskipafélagið látið rúma 2 milljarða fyrir félagið. Það þykir í hærri kantinum, en á móti kemur að Baldur Guðnason, forstjóri Eimskipa segir stefnt að því að auka mjög samlegð og hagkvæmni við sameiningu félaganna. Baldur segir að stefnt sé að 500 milljóna króna hagræðingu við sameininguna Það er segin saga að þegar fyrirtæki sameinast þá tala stjórnendur um hagræðingaáhrif sem af sameiningunni hljótast. Það leiðir huga fólks yfirleitt að uppsögnum. Í þessu tilviki eins og öðrum vilja stjórnendur ekkert segja um hvort eða hvenær uppsagnir koma til.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×