Breska rokksveitin Muse og hin bandaríska My Chemical Romance hafa gert hlé á tónleikaferð sinni um Bandaríkin eftir að fylgdarlið beggja sveita, ásamt meðlimum My Chemical Romance, fékk matareitrun.
Veikindin komu upp eftir tónleika í Virginíu síðastliðinn sunnudag og þurftu þeir sem sýktust að fara á sjúkrahús. Þegar hefur tvennum tónleikum verið frestað en vonir standa til að tónleikaferðin geti hafist sem allra fyrst aftur.
Muse, sem spilar á Wembley 16. og 17. júní, var nýverið kjörin besta hljómsveit Bretlands á NME-verðlaunahátíðinni. My Chemical Romance var valin besta erlenda hljómsveitin.