Vonast er til að vesturleiðin til Ísafjarðar opnist á morgun en snjóruðningsmenn Vegagerðarinnar kappkosta nú við að moka Hrafnseyrarheiði. Þetta er að öllum líkindum síðasti snjómokstur á þessum erfiða farartálma áður en Dýrafjarðargöngin opnast en þau eiga að leysa heiðina af hólmi fyrir næsta vetur. Myndir af mokstrinum voru sýndar í fréttum Stöðvar 2.
Snjóblásari, jarðýta og hjólaskófla hófu að moka Hrafnseyrarheiðina á mánudag en dagana á undan hafði tækjaflokkur Vegagerðarinnar rutt Dynjandisheiði. Þegar Haukur Sigurðsson myndaði snjóruðningstækin í gær voru þau í efstu brekkunni Dýrafjarðarmegin og áttu stutt eftir upp á brún hinnar 552 metra háu Hrafnseyrarheiðar.

Erfiðasti og snjóþyngsti kaflinn var þá eftir, efsta brekkan Arnarfjarðarmegin, en þar býst yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Ísafirði, Guðmundur Björgvinsson, við að snjóstálið sé tíu til tólf metra hátt.
Það er lýsandi fyrir hversu erfiður farartálmi þessi heiði er fyrir samgöngur innan Vestfjarðar að hún hefur verið ófær frá því um miðjan desember eða í hartnær fimm mánuði. Guðmundur kvaðst í dag bjartsýnn á að það tækist að opna Hrafnseyrarheiði á morgun, fimmtudag, en þar með opnast vesturleiðin til Ísafjarðar.

En þetta gætu líka verið sögulegar myndir því þetta er að öllum líkindum í síðasta sinn sem svo umfangsmikill snjómokstur fer fram að vori á Hrafnseyrarheiði. Dýrafjarðargöngum er nefnilega ætlað að leysa heiðina af hólmi og vonast er til að göngin verði tilbúin fyrir næsta vetur.
Það gæti þó farið svo að vegagerðarmenn moki heiðina oftar, en þá í júnímánuði í talsvert minni snjó. Að sögn Guðmundar eru áform uppi um að viðhalda Hrafnseyrarheiði sem tengivegi milli Þingeyrar og Hrafnseyrar á sumrin.
Heiðin gæti þá jafnframt þjónað sem vegminjar um hrikalegar vestfirskar heiðar og gæti sem slík orðið vinsæl ökuleið enda þykir útsýnið af henni stórbrotið.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Sjá einnig hér: Vilja varðveita Hrafnseyrarheiði
Hér má sjá útsýnið af heiðinni að sumri: