Blaðamenn felldu kjarasamning við SA í síðustu viku en skrifað var undir hann í kjölfar þess að boðuðum verkfallsaðgerðum var frestað um viku.
Sú ákvörðun samninganefndar félagsins var afar umdeild enda hafði hún í för með sér að verkfall á prentmiðlum, sem átti að vera síðastliðinn fimmtudag, daginn fyrir svokallaðan Black Friday, frestaðist til dagsins í dag.
Eftir að kjarasamningurinn var felldur í atkvæðagreiðslu hafa samninganefndir BÍ og SA átt fundi hjá ríkissáttasemjara en án árangurs. Síðast var fundað á þriðjudag og hefur nýr fundur ekki verið boðaður í deilunni.

„Við tökum stöðuna á þessu á morgun, þegar við sjáum hvernig blöðin líta út,“ segir Hjálmar.
Jón Þórisson, ritstjóri Fréttablaðsins, sagði í dag að til stóð að gefa út blað á morgun en það yrði með breyttu sniði. Verkfallið muni setja mark sitt á blaðið og það muni ekki fara fram hjá lesendum.
Sjá einnig: Verkfallið muni setja mark sitt á blað morgundagsins
Gengið hefur á ýmsu í verkfallsaðgerðum blaðamanna en Blaðamannafélagið hefur kært Árvakur sem gefur út Morgunblaðið til félagsdóms fyrir verkfallsbrot. Engar athugasemdir hafa aftur á móti verið gerðar við framkvæmd Fréttablaðsins.
Blaðamenn á Vísi eru félagsmenn í Blaðamannafélagi Íslands.