„Ég ólst upp við það að Gauti bróðir stamaði. Mjög illa. Frá frumbernsku man ég eftir kvíðanum og angistinni sem fylgdi þessu og ég man eftir umræðum við foreldra okkar um mikilvægi þolinmæði, bíða, ekki grípa frammí og ekki gera óþarfa mál úr þessu. Það þurfti varla að hafa orð á því að stríðni eða háð væri útilokað,“ segir Dagur.
„Ég gat hins vegar orðið mjög reiður ef ég fann fyrir háði eða stríðni í garð bróður míns út af þessu. Stamið eltist af honum og ég veit fyrir víst að Ásgeir hefur með mikilli vinnu unnið mjög úr sínu málhelti.“
Hann segir að síðar á ævinni hafi hann kynnst því að margt kjarkmesta fólk sem hann hafi kynnst hafi þá reynslu að hafa þurft að glíma við stam.

Fleiri virðast hafa tekið eftir þessari umræðu og leggja orð í belg. Þeirra á meðal Jóna Hrönn Bolladóttir prestur.
„Það er alveg ótrúlegt að fylgjast með því hvað fullorðið fólk hefur talað um málhelti seðlabankastjóra með ljótum og stórum orðum. Ég veit að Ásgeir getur tekist á við það en það er bara svo vont að verða vitni að svona miklum andstyggilegheitum, maður verður ekkert sérlega bjartsýnn á samfélagið.“
Umræðan sem Dagur nefnir virðist hins vegar koma Illuga Jökulssyni og fleirum í opna skjöldu. Sumir gerðu sér ekki grein fyrir að Ásgeir stamaði og aðrir segjast ekki hafa orðið varir við neina umræðu hvað þetta varði.
„Þetta er fínn pistill en ég hef hlustað á Ásgeir Jónsson tala í 12-13 ár og hafði ekki hugmynd um að hann stamaði og hef hvorki fyrr né síðar séð neinn skamma hann fyrir það. Ég vissi ekki af þessu fyrr en það var farið að skamma einhverja ónafngreinda menn fyrir að gera lítið úr honum vegna þessa.“
„Vel mælt. Tek hér undir hvert orð!“ segir Jakob Frímann Magnússon.