Ganz var þekktur fyrir hlutverk sín í þýskum kvikmyndum og leikritum og var hans frægasta mynd vafalaust Downfall sem bar heitið Der Untergang á þýsku. Þar fór hann eins og áður sagði með hlutverk nasistaforingjans og kanslarans Adolf Hitler.
Sena úr kvikmyndinni fór eins og eldur í sinu um Internetið þar sem Ganz leikur reiðan Hitler af mikilli innlifun. Senan varð fljótt að svokölluðu „meme“ þar sem netverjar kepptust við að texta senuna og setja hana í annað samhengi.

Við andlát sitt var Ganz handhafi Iffland-hringsins sem veittur er þýskumælandi leikurum sem þykja hafa skarað fram úr. Ekki er vitað hvern Ganz hafði valið sem næsta handhafa hringsins en hringurinn gengur milli leikara og þykir mikil viðurkenning.