Innlent

Telur að niður­skurðurinn hafi aldrei verið lag­færður

Lillý Valgerður Pétursdóttir og Eiður Þór Árnason skrifa

Stéttarfélagið Efling hefur slitið kjaraviðræðum sínum við Reykjavíkurborg. Bréf þess efnis var sent ríkissáttasemjara og Reykjavíkurborg eftir hádegi í dag.

Um níu mánuðir eru frá því að kjarasamningar losnuðu og hófust viðræður aðilanna fljótlega upp úr því en lítið hefur miðað í átt að samkomulagi.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 að viðræðurnar strandi á fjölmörgum atriðum.

„Því miður eftir allan þennan tíma þá höfum við ekki náð að koma okkar skilaboðum áleiðis til samninganefndarinnar um það að fólkið okkar, Eflingarstarfsmenn sem starfa hjá borginni sem eru hátt í tvö þúsund í gríðarlega mikilvægum störfum, meðal annars manna stóran hluta af þeim leikskólastörfum sem hér eru unnin, það bara verður einfaldlega að lagfæra kjör þessa fólks.“

Sólveig sagði að þar eigi Efling ekki einungis við um launakjör heldur líka starfsaðstæður.

„Borgin fór í stórkostlegan niðurskurð eftir hrun, að okkar mati hefur sá niðurskurður til dæmis ekki verið lagfærður. Það virðast vera til endalausir fjármunir í þessari borg til að setja bara í hitt og þetta en ekki til að lagfæra kjör þessa fólks, þannig að það hryggir mig að segja frá því að við höfum ekki upplifað það að á okkur væri hlustað að eiginlega neinu leyti.“

Reiknað er með því að Ríkissáttasemjari boði til fundar í deilu Reykjavíkurborgar og Eflingar á næstunni. Sólveig segist hafa rætt við sitt fólk og segir það vera tilbúið í átök ef til þess kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×