Innlent

Festi bílnum á grjóti á hringtorgi

Atli Ísleifsson skrifar
Tvö innbrot voru tilkynnt til lögreglunnar á Suðurnesjum um helgina.
Tvö innbrot voru tilkynnt til lögreglunnar á Suðurnesjum um helgina. vísir/vilhelm

Ökumaður ók bíl upp á hringtorg við Njarðarbraut í Reykjanesbæ um helgina.

Í tilkynningu frá lögreglu á Suðurnesjum segir að bíllinn hafi hafnað ofan á grjóti og setið þar föst.

„Þurfti dráttarbifreið til að lyfta henni ofan af grjótinu og fjarlægja hana. Þá reyndist rúmlega þrítugur ökumaður sem lögreglan á Suðurnesjum hafði afskipti af aldrei hafa öðlast ökuréttindi. Tveir ökumenn voru svo grunaðir um fíkniefnaakstur. Annar þeirra var með fíkniefni í fórum sínum.

Tvö innbrot voru enn fremur tilkynnt til lögreglu um helgina. Brotist var inn í bát í Njarðvíkurhöfn og farið í lyfjaskáp. Ekki er ljóst hvort einhverju var stolið.

Þá var brotist inn í bifreið sem skilin hafði verið eftir við hringtorg í Vogum. Eigandi hennar saknaði heyrnartóla og hlaupaúrs sem í henni voru,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×