Innlent

Þurrasti nóvember í áratugi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Meðalhiti í Reykjavík í nóvember var 2,4 stig og er það 1,2 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en -0,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára.
Meðalhiti í Reykjavík í nóvember var 2,4 stig og er það 1,2 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en -0,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. vísir/vilhelm
Nýliðinn nóvembermánuður var óvenju hægviðrasamur og tíðin hagstæð samkvæmt samantekt á vef Veðurstofu Íslands.

Óvenju þurrt var um norðanvert landið og var mánuðurinn víða um land þurrasti nóvembermánuður um áratugaskeið. Kaldast var á Norðausturlandi en hlýrra vestan til á landinu.

Meðalhiti í Reykjavík í mánuðinum var 2,4 stig og er það 1,2 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en -0,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára.

Á Akureyri var meðalhitinn -0,8 stig, -0,5 stigum undir meðallagi áranna 1961 til 1990, en -1,8 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi og í Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 2,0 stig.

Hvað úrkomuna varðar þá voru allmörg þurrkamet slegin. Á Akureyri mældist úrkoma aðeins 4,6 mm sem eru tæp 10% af meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Þetta er næstþurrasti nóvembermánuður frá upphafi samfelldra úrkomumælinga á Akureyri 1927. Þurrara var í nóvember 1952 þegar úrkoman mældist 3,0 mm.

Fleiri sólskinsstundir í Reykjavík en í meðalári

Í Reykjavík mældist úrkoman 73,1 mm sem er jafnt meðallagi áranna 1961 til 1990. Úrkoman í Stykkishólmi mældist 36,1 mm sem er um helmingur af meðaltali áranna 1961 til 1990.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri á Akureyri voru aðeins 3, átta færri en í meðalári. Í Reykjavík mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 13 daga, jafnmargir og í meðalári.

Þá mældust sólskinsstundir í Reykjavík 49,2, sem er 10,6 stundum fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 18,0, sem er 3,7 stundum fleiri en í meðalári.

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu 11 mánuði ársins var 6,3 stig sem er 1,6 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en 0,4 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 6. til 7. sæti á lista 149 ára.

Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna ellefu 4,8 stig. Það er 1,1 stigi ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en -0,2 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 25.sæti á lista 139 ára. Úrkoma í Reykjavík hefur verið 11% umfram meðallag og 15% umfram meðallag á Akureyri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×