Innlent

Geðlæknir starfandi við fangelsin í fyrsta sinn í langan tíma

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Fangar hafa framvegis aðgengi að geðlækni þegar á þarf að halda ólíkt því sem verið hefur hingað til. Ráðist á í sérstakt átak til að stórefla geðheilbrigðisþjónustu við fanga.Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins mun framvegis sinna geðheilbrigðisþjónustu við fanga í öllum fangelsum landsins. Stofnað hefur verið sérhæft geðheilsuteymi fanga sem sinnir verkefnum sem tengjast föngum. Sérstakt samkomulag þessa efnis var undirritað í fangelsinu á Hólmsheiði í morgun.„Þetta er ársverkefni sem við erum að setja af stað. Sem er undirbúningur að því hvernig við sjáum þetta til lengri framtíðar. Það er fjármagnað.  Við erum með fimmtíu og fimm milljónir á þessu ári og síðan sjötíu á næsta ári. Vegna þess að ég vil að það liggi algjörlega fyrir að verkefnið sé fjármagnað til fulls,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Hún vonast til að þjónustan eigi eftir að festa sig í sessi.Páll Winkel fangelsismálastjóri segir mikið ánægjuefni að stórefla eigi þessa þjónustu við fanga. „Þetta er auðvitað magnaður dagur. Við erum búin að bíða eftir þessu í marga áratugi. Berjast fyrir því að fá geðheilbrigðisþjónustu fyrir þennan veika skjólstæðingahóp,“ segir Páll.Hann segir fanga koma til með að finna mikla breytingu. „Fangar hafa núna aðgengi að geðlækni þegar það hentar og þegar það er nauðsynlegt. Það hefur ekki verið geðlæknir starfandi við fangelsi landsins í mörg ár. Bara það eitt og sér skiptir miklu máli en að það sé heilt teymi í kringum það og aðgengi fanganna að þessu teymi þegar það þarf, skiptir miklu máli,“ segir Páll.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.