Innlent

Ákærður fyrir 1500 krónu Bónushnupl

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Maðurinn er sagður hafa farið inn í tvær Bónusverslanir á skömmum tíma og hnuplað þaðan vörum.
Maðurinn er sagður hafa farið inn í tvær Bónusverslanir á skömmum tíma og hnuplað þaðan vörum. Vísir/vilhelm
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur ákært íslenskan karlmann á fimmtugsaldri fyrir að hafa tvívegis hnuplað úr Bónusverslunum í vor. Er þess krafist að maðurinn verði dæmdur til greiðslu sakarkostnaðar og refsingar, sem að hámarki getur orðið sex ára fangelsi.

Manninum er gert að mæta fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur um miðjan janúar þar sem hann þarf að svara til saka fyrir meint brot sín. Honum er gefið að sök að hafa farið í lok mars síðastliðins inn í verslun Bónuss við Laugaveg og tekið þaðan vörur ófrjálsri hendi, að verðmæti 570 krónur.

Hann er jafnframt sagður hafa farið viku síðar inn í aðra Bónusverslun, við Tjarnarvelli í Hafnarfirði, og stolið þaðan vörum fyrir alls 984 krónur. Heildarupphæð þjófnaðarins sem hann er ákærður fyrir nemur því 1554 krónum.

Í ákæru á hendur manninum er tekið fram að meintur þjófnaður hans varði við almenn hegningarlög, nánar tiltekið 1. málsgrein 244. greinar þar sem segir að þjófnaður á „fjármunum eða orkuforða varðar fangelsi allt að 6 árum.“

Er þess því krafist að maðurinn verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Mæti hann ekki fyrir héraðsdóm um miðjan janúar verður það metið til jafns við það að hann hafi viðurkennt brot sitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×