Innlent

Á­kveðin norð­austan­átt leikur nú um landið og næsta lægð nálgast

Atli Ísleifsson skrifar
Má búast við dálítilli snjókomu eða éljum á Norður- og Austurlandi.
Má búast við dálítilli snjókomu eða éljum á Norður- og Austurlandi. veðurstofan

Ákveðin norðaustanátt leikur nú um landið og ríkir sums staðar stormur á Vestfjörðum og við Vatnajökul fram eftir morgni. Annars er hægari vindur og hiti kringum frostmark.

Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar. Spáð er norðaustan 10 til 18 metrum á sekúndu og skýjað, en 18 til 23 metrum með snjókomu eða skafrenningi suðaustanlands og á Vestfjörðum fram eftir morgni.

Má búast við dálítilli snjókomu eða éljum á Norður- og Austurlandi, en dregur úr vindi og úrkomu seinni partinn og kólnar heldur. Bjartviðri verður sunnan- og vestanlands í dag.

„Á morgun kemur næsta lægð í heimsókn með vaxandi suðaustanátt og slyddu, en síðar rigningu sunnan og vestan til. Vindur helst mun hægari á Norðausturlandi fram undir kvöld, en hvessir þá einnig þar og fer að snjóa. Jafnframt lægir þá sunnan- og vestanlands. Hlýnar heldur á morgun, þó hiti haldist að mestu neðan frostmarks í innsveitum norðaustanlands.“

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á mánudag: Gengur í suðaustan 13-18 m/s með snjókomu, en slyddu eða rigningu við S-ströndina seinni partinn. Hægari NA-lands framan af degi, en hvessir undir kvöld og fer að snjóa þar. Hiti um 4 stig syðst á landinu, annars 0 til 10 stiga frost, kaldast á NA-landi.

Á þriðjudag: Útlit fyrir að gangi í norðan- og norðaustanstórhríð á N- og A-verðu landinu, annars hægara og úrkomuminna. Hiti kringum frostmark.

Á miðvikudag: Útlit fyrir norðanhvassviðri eða -storm með snjókomu eða éljagangi, en bjartviðri sunnan heiða. Dregur úr vindi og ofankomu um kvöldið og kólnar í veðri.

Á fimmtudag, föstudag og laugardag: Líklega ákveðin norðan- og norðaustanátt með ofankomu og köldu veðri, en bjartviðri sunnan heiða.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.