Innlent

Óvissustig vegna snjóflóðahættu á Mið-Norðurlandi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mikilli snjókomu er spáð á Mið-Norðurlandi í mjög hvassri norðaustan- og norðanátt.
Mikilli snjókomu er spáð á Mið-Norðurlandi í mjög hvassri norðaustan- og norðanátt. veðurstofa íslands

Klukkan átta í fyrramálið tekur gildi óvissustig vegna snjóflóðahættu á Mið-Norðurlandi. Þetta kemur fram í Facebook-færslu Veðurstofu Íslands.

Þar segir að spáð sé mikilli snjókomu á svæðinu í mjög hvassri norðaustan- og norðanátt. Búast megi við því að snjóflóðahætta geti skapast í fjalllendi í Skagafirði, Tröllaskaga og austur fyrir Eyjafjörð.

Þá er viðbúið að snjóflóð falli í bröttum brekkum sem safna í sig snjó í norðaustan- og norðanáttum, einkum þar sem snjór safnast í gil.

Fylgst verður með snjóflóðahættu í byggð, en reistar hafa verið varnir í þéttbýli þar sem hættan var áður mest, til dæmis á Siglufirði. Nánari upplýsingar má nálgast á vef Veðurstofunnar.

Appelsínugul veðurviðvörun tekur gildi klukkan 7 í fyrramálið á Norðurlandi vestra og á Norðurlandi eystra.

Klukkan 17 verður appelsínugula viðvörunin síðan að rauðri viðvörun á Norðurlandi vestra og er hún í gildi þar til klukkan eitt aðra nótt. Appelsínugula viðvörunin á Norðurlandi eystra er í gildi til 21 á miðvikudagskvöld.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.