Innlent

Óvissustig vegna snjóflóðahættu á Mið-Norðurlandi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mikilli snjókomu er spáð á Mið-Norðurlandi í mjög hvassri norðaustan- og norðanátt.
Mikilli snjókomu er spáð á Mið-Norðurlandi í mjög hvassri norðaustan- og norðanátt. veðurstofa íslands

Klukkan átta í fyrramálið tekur gildi óvissustig vegna snjóflóðahættu á Mið-Norðurlandi. Þetta kemur fram í Facebook-færslu Veðurstofu Íslands.

Þar segir að spáð sé mikilli snjókomu á svæðinu í mjög hvassri norðaustan- og norðanátt. Búast megi við því að snjóflóðahætta geti skapast í fjalllendi í Skagafirði, Tröllaskaga og austur fyrir Eyjafjörð.

Þá er viðbúið að snjóflóð falli í bröttum brekkum sem safna í sig snjó í norðaustan- og norðanáttum, einkum þar sem snjór safnast í gil.

Fylgst verður með snjóflóðahættu í byggð, en reistar hafa verið varnir í þéttbýli þar sem hættan var áður mest, til dæmis á Siglufirði. Nánari upplýsingar má nálgast á vef Veðurstofunnar.

Appelsínugul veðurviðvörun tekur gildi klukkan 7 í fyrramálið á Norðurlandi vestra og á Norðurlandi eystra.

Klukkan 17 verður appelsínugula viðvörunin síðan að rauðri viðvörun á Norðurlandi vestra og er hún í gildi þar til klukkan eitt aðra nótt. Appelsínugula viðvörunin á Norðurlandi eystra er í gildi til 21 á miðvikudagskvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×