Innlent

Óttast flótta verði starfsaðstæður í leik- og grunnskólum ekki jafnaðar

Birgir Olgeirsson skrifar
Formaður leikskólastjórnenda óttast flótta þegar leikskólakennarar öðlast kennsluréttindi í grunnskólum um áramótin. Jafna þarf starfsaðstæður á milli grunnskóla og leikskóla til að koma í veg fyrir það.

Kennarar fá eitt leyfisbréf til kennslu í leik-, grunn- og framhaldsskólum um áramótin. Formaður Félags stjórnenda leikskóla segir hljóðið þungt í félagsmönnum á svæðum þar sem vantar kennara til starfa.

„Það hafa fréttir borist af Austurlandi þar sem leikskólastjórar hafa lýst yfir miklum áhyggjum og það er vert að hlusta á þær,“ segir Sigurður Sigurjónsson, formaður Félags stjórnenda leikskóla.

Ástæða sé til að hafa áhyggjur af höfuðborgarsvæðinu.

„Ég veit að það er mikil vöntun á leikskólakennurum. Ef það verður einhver flótti úr leikskólum í Reykjavík, þá verður vandinn mikill.“

Jafna þurfi starfsaðstæður starfsfólks leikskóla og grunnskóla.

„Í dag er það þannig að leikskólakennarar og annað starfsfólk leikskóla vinnur 40 tíma á viku. Í grunnskólanum er starfstíminn öðruvísi. Þar eru vetrarfrí, páskafrí og jólafrí. Allt þetta heillar menntaða kennara, að komast inn í slíkar aðstæður.“

Launakjörin hafi verið jöfnuð að mestu leyti. Í grunnskólum séu þó fleiri yfirvinnumöguleikar.

Sigurður segir leikskólann eiga mörg ár fyrir höndum að lagfæra þann skaða sem hlýst ef ekki verður gripið inn í.

„Ég vonast til þess að við náum að leysa þessi mál því kjarasamningar félaga kennarasambandsins eru lausir núna. Við erum að fara að hefja viðræður við sambandið núna og ég vona að við getum rætt þessi mál þar og leyst þau.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.