Innlent

MDE tekur fyrir mál íslenska spilafíkilsins

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Guðlaugur Karlsson fyrir framan spilakassana sem hafa haft af honum aleiguna.
Guðlaugur Karlsson fyrir framan spilakassana sem hafa haft af honum aleiguna. Fréttablaðið/Anton brink
Mannréttindadómstóll Evrópu mun taka fyrir mál spilafíkilsins Guðlaugs Jakobs Karlssonar sem höfðaði mál á hendur íslenska ríkinu til innheimtu bótanna vegna tjóns sem hann segist hafa orðið fyrir og rekja megi til þess að ríkinu sé heimilt að reka spilakassa í andstöðu við 183. grein almennra hegningarlaga sem fjalla um fjárhættuspil.

Frá þessu er greint á vef Mbl.is en Landsréttur sýknaði ríkið af kröfum Guðlaugs Jakobs í október á síðasta ári. Alls krafðist Guðlaugur Karl 77 milljóna króna.

Vísir hefur áður fjallað ítarlega um mál Guðlaugs Karls en umfjöllun um það má lesa hér, hér, hérhér og hér.

Guðlaugur höfðaði upphaflega mál gegn ríkinu og SÁÁ árið 2016. Málinu var vísað frá vegna formgalla en óljóst þótti hver ábyrgð væri ríkisins annars vegar og SÁÁ hins vegar. Það var tekið til meðferðar í vor og tapaðist það í héraðsdómi. Guðlaugur áfrýjaði málinu til Landsréttar sem komst að sömu niðurstöðu.

Málið snýst um að ríkið hefur samkvæmt lögum nr. 13/1973 um Happdrætti Háskóla Íslands og lögum 73/1994 um söfnunarkassa leyfi til að reka spilakassa. Um er að ræða sérlög í andstöðu við almenn hegningarlög þar sem segir í 183. grein að sá sem gerir fjárhættuspil eða veðmál að atvinnu sinni eða komi öðrum til þátttöku í þeim skuli sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári.

„Þeir eru með leyfi til reksturs happdrættisvéla sem eru ekki til, hvergi í heiminum. Þetta er ekkert annað en fjárhættuspil,“ sagði Guðlaugur í samtali við Vísi árið 2016.

Tekist var á hvort þessi sérlög gengu framar en hegningarlög. Guðlaugur og lögmaður hans taldi það ekki ganga upp en héraðsdómur og Landsréttur voru á öðru máli. Sérlögin væru yngri en almennu hegningarlögin og gengu því framar almennum hegningarlögum.

Á vef Mbl.is er haft eftir lögmanni Guðlaugs að málið sé komið á dagskrá Mannréttindadómstóls Evrópu en óvíst sé hvenær það verði tekið fyrir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×