Innlent

Aldrei nein óvissa með dótturfélag RÚV

Ari Brynjólfsson skrifar
Skúli Eggert Þórðarsson, ríkisendurskoðandi.
Skúli Eggert Þórðarsson, ríkisendurskoðandi.
Skúli Eggert Þórðarson ríkisendurskoðandi segir aldrei hafa ríkt óvissu um að RÚV bæri að stofna dótturfélag. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem kom út í lok síðustu viku segir að RÚV hafi brotið lög frá því í byrjun árs 2018 með því að stofna ekki dótturfélag um samkeppnisrekstur.

Kári Jónasson, stjórnarformaður RÚV, sagði við Fréttablaðið að óvissa hefði ríkt um stofnun dótturfélags vegna virðisaukaskattsmála.

„Þetta er það sem við höfum verið að bíða eftir og nú munum við bara bretta upp ermarnar og í næstu viku munum við setja á stofn vinnuhóp og undirbúa stofnun dótturfélags. Þetta átti að vera tilbúið í vor frá Ríkisendurskoðun en hefur dregist. Við erum mjög fegin að vera loksins búin að fá stimpilinn frá Ríkisendurskoðun,“ sagði Kári.

Skúli Eggert segir að ekki hafi verið nein óvissa um þetta. „Frá ársbyrjun 2018 hefur það verið alveg skýr lagaskylda að stofna dótturfélag.“

Að auki hafi það ekki verið hlutverk Ríkisendurskoðunar að eyða slíkri óvissu. „Ríkisendurskoðun fékk fyrirspurn frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu um hvort aðskilnaður væri í bókhaldi. Í framhaldi kom beiðni til embættisins um að kanna fjárhagslega aðskilnaðinn. Ríkisendurskoðun hóf stjórnsýsluúttekt í framhaldinu sem tæki til fjármögnunar, reikningsskila og samkeppnisreksturs RÚV hinn 11. desember 2018,“ segir Skúli Eggert.

„Vorið var ekki sérstaklega til umræðu. Fyrstu gögn frá RÚV bárust í janúar 2019 og fyrstu skýrsludrög voru til meðferðar hjá RÚV um mánaðamótin maí-júní. Í kjölfarið kom mikið gagnamagn frá RÚV.“

Skýrsludrögin voru send út til umsagnar í september síðastliðnum og komu síðustu athugasemdir frá RÚV í lok október.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×