Innlent

Namibíu­menn móðguðust vegna ís­lenska lamba­kjötsins

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu.
Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu. Twitter/The Namibian
Svo virðist sem að þáverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, Bernhard Esau, og aðrir embættismenn hafi móðgast þegar þeir fengu íslenskt lambakjöt að borða í heimsókn sinni um borð í togara Samherja, Heinaste, í maí árið 2016.

Þetta má lesa út úr tölvupósti Sharon Neumbo, stjórnarformanns Sinco Fishing sem starfað hefur með Samherja í Namibíu, til Jóhannesar Stefánssonar sem hún sendi þann 20. maí 2016.

Jóhannes starfaði sem rekstrarstjóri Samherja í Namibíu en hefur nú ljóstrað upp um starfsemi félagsins í landinu og meint brot þess, meðal annars varðandi mútugreiðslur til namibískra embættismanna og skattaundanskot.

Í tölvupósti Neumbo til Jóhannesar segir hún að þótt það hafi verið stolt stund fyrir Jóhannes og Íslendingana í áhöfn Heinaste að bjóða upp á íslenskt lamb þá hafi það ekki fallið í kramið hjá namibísku embættismönnunum þar sem það hafi gefið til kynna að það væru ekki nein namibísk matvæli um borð.

„Í rauninni á Namibía nóg af lambi til þess að fæða alla þjóðina,“ segir í pósti Neumbo.

Þá segir Neumbo að embættismennirnir hafi einnig skoðað áhafnarlista togarans og tekið eftir því að það hafi vantað namibíska áhafnarmenn í grunnstöður. Gerir Neumbo athugasemdir við þetta og segir að þarna séu útlendingar að óþörfu í störfum sem Namibíumenn geti sinnt.


Tengdar fréttir

Óttast ekki fangelsi

Þorsteinn Már Baldvinsson leggur mikla áherslu á þá innri rannsókn sem Samherji hefur blásið til í tengslum við umfjöllun um starfsemi fyrirtækisins í Namibíu, sannleikurinn muni koma í ljósi.

Segir erfið verkefni bíða sín sem forstjóri Samherja

Stjórn Samherja óskaði eftir því að Björgólfur tæki starfið að sér á meðan Þorsteinn Már Baldvinsson stígur til hliðar sem forstjóri þar til helstu niðurstöður yfirstandandi innri rannsóknar á ætluðum brotum dótturfélags í Namibíu liggja fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×