Innlent

Greina frá ó­venju­tíðum bíl­veltum á Suðurnesjum

Eiður Þór Árnason skrifar
Einnig hefur nokkuð verið um það að tjónavaldar stingi af í kjölfar þess að hafa keyrt utan í kyrrstæðar og mannlausar bifreiðir.
Einnig hefur nokkuð verið um það að tjónavaldar stingi af í kjölfar þess að hafa keyrt utan í kyrrstæðar og mannlausar bifreiðir. vísir/vilhelm
Þrjár bílveltur hafa átt sér stað í umdæmi Lögreglunnar á Suðurnesjum síðustu daga, nú síðast í morgun þegar bílvelta varð við gatnamót Hringbrautar og Heiðarbergs í Reykjanesbæ.

Tveir voru í bifreiðinni og sluppu þeir án meiðsla. Bifreiðin endaði sex metra utanvegar á hvolfi og reyndist vera ótryggð, er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni. Skráningarnúmer bílsins voru þá fjarlægð.

Í gær missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Reykjanesbraut með þeim afleiðingum að hún endaði utan vegar og fór tvær veltur. Samkvæmt lögreglunni er hún talin hafa loks numið staðar 76 metrum frá þeim stað þar sem ökumaður missti stjórn á henni.

Hann komst út úr bifreiðinni að sjálfsdáðum en kvartaði undan miklum sársauka í hálsi og baki þegar lögreglumenn ræddu við hann á vettvangi. Maðurinn var fluttur á Landspítalann í Fossvogi til aðhlynningar.

Önnur bílvelta varð enn fremur þegar ökumaður ók út af Grindavíkurvegi. Kenndi maðurinn hálku um óhappið og slapp án teljandi meiðsla.

Lögreglan greinir einnig frá því að annar ökumaður hafi ekið bifreið sinni út af Grindavíkurvegi. Leikur grunur á að ölvun hafi komið þar við sögu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×