Lífið

Óklárað hús á 99 milljónir í götu Engeyinga

Stefán Árni Pálsson skrifar
Í raun er ekkert inni í eigninni.
Í raun er ekkert inni í eigninni.
Fasteignasalan Remax Senter er með einbýlishús á söluskrá við Bakkaflöt í Garðabæ. Um er að ræða hús sem byggt var árið 1966 og er að stærð 240 fermetrar.

Alls eru fimm svefnherbergi í eigninni en húsið selt í núverandi ástandi. Húsið er staðsett í botnlanga og snýr garðurinn í suðvesturátt, út á friðað hraun. Búið er að teikna stækkun fyrir húsið, rífa út úr húsinu og skera út fyrir gluggum.

Húsið er í raun galtómt og er ekki að sjá að það sé gólfefni til staðar. Enginn gluggar eru í eigninni og búið er að negla viðarplötur fyrir á mörgum stöðum.

Nágrannarnir eru aftur á móti í þekktari kantinum og meðal þekktustu Garðbæinganna. Í götunni býr Einar Sveinsson fjárfestir, bróðir Benedikts Sveinssonar, pabba Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Bjarni býr sömuleiðis í götunni ásamt Þóru Margréti Baldvinsdóttur konu sinni.

Einar er faðir Benedikts Einarssonar, lögmanns og eiginmanns Birgittu Haukdal söngkonu. Benedikt og Birgitta eiga einnig heima í götunni.

Við Bakkaflötina býr einnig Jón Pálmason, sonur Pálma Jónssonar í Hagkaup, og bróðir Ingibjargar Stefaníu Pálmadóttur og Lilju Pálmadóttur. 

Búið að negla fyrir marga glugga.
Svæðið er fallegt.
Högnuhús í Garðabæ er einnig staðsett við Bakkaflötina og var fjallað um það í þáttunum Falleg íslensk heimili á Stöð 2. Húsið er eitt af hundrað merkustu húsum 20. aldar í norður- og miðhluta Evrópu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×