Innlent

Styttist í Dýrafjarðargöng þegar verkþættir klárast hver af öðrum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Karl Garðarsson, verkefnisstjóri Suðurverks í Dýrafjarðargöngum.
Karl Garðarsson, verkefnisstjóri Suðurverks í Dýrafjarðargöngum. Stöð 2/Sigurjón Ólason.
Vaxandi eftirvænting er meðal Vestfirðinga eftir því sem gerð Dýrafjarðarganga miðar fram. Hver verkþáttur klárast nú á fætur öðrum og nú er biðin eftir þessari langþráðu samgöngubót ekki lengur talin í árum heldur í mánuðum, en fjallað var um verkefnið í fréttum Stöðvar 2. 

Þótt hálft ár sé liðið frá því slegið var í gegn eru mörg handtökin enn eftir. Vinnusvæðin þessa dagana eru í báðum fjörðum, Arnarfirði og Dýrafirði, og svo auðvitað inni í göngunum.

Arnarfjarðarmegin er verið að steypa upp vegskála.Stöð 2/Sigurjón Ólason.
Starfsmenn verktakanna, hins tékkneska Metrostav og hins íslenska Suðurverks, eru um 75 talsins og þessa dagana er verið að steypa vegskála Arnarfjarðarmegin. Brátt sér fyrir endann á þessum verkþætti en vegskálinn Dýrafjarðarmegin er tilbúinn og skálinn Arnarfjarðarmegin klárast upp úr miðjum nóvember. 

Göngin sjálf eru alls 5,6 kílómetra löng og inni er núna unnið við vatnsklæðningar. Það er einnig gert með sprautusteypu en talsvert magnaukning hefur orðið á þessum liðum. Í framhaldinu verður svo farið í uppsetningu rafbúnaðar.

Tvær nýjar brýr eru komnar í botni Borgarfjarðar, nyrsta innfirði Arnarfjarðar, yfir Mjólká og Hófsá.Stöð 2/Sigurjón Ólason.
Sýnilegasti hluti framkvæmdanna fyrir vegfarendur er vega- og brúagerðin en alls þarf að leggja átta kílómetra af nýjum vegum, bæði í Dýrafirði sem og botni Arnarfjarðar meðfram Mjólkárvirkjun. Þar eru tvær nýjar brýr tilbúnar, yfir Mjólká og Hófsá.

Frá gerð nýja vegarins í Dýrafirði.Stöð 2/Sigurjón Ólason.
Að sjá vegina þannig mótast að göngunum eykur sannarlega á eftirvæntingu Vestfirðinga en verktakinn stefnir að því að göngin verði tilbúin í september á næsta ári. Veturinn sem í hönd fer verður því væntanlega sá síðasti sem menn aka yfir og þurfa að moka Hrafnseyrarheiði. 

Karl Garðarsson, verkefnisstjóri Suðurverks, lýsti nánar framvindu verksins í frétt Stöðvar 2, sem sjá má hér:


Tengdar fréttir

Vilja varðveita Hrafnseyrarheiði

Hugmyndir hafa vaknað um að Hrafnseyrarheiði verði gerð að þjóðminjum og haldið opinni á sumrin vegna magnaðs útsýnis, þrátt fyrir að Dýrafjarðargöngum sé ætlað að leysa hana af hólmi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×