Innlent

Snjósöfnun næstu daga

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Búast má við snjósöfnun á norðanverðu landinu næstu daga.
Búast má við snjósöfnun á norðanverðu landinu næstu daga. Vísir/vilhelm

Kort Veðurstofunnar fyrir vikuna eru vetrarleg. Jörð er nú þegar orðin hvít á norðanverðu landinu og má þar búast við éljagangi í dag. Ekki er loku fyrir það skotið að él muni jafnframt gera vart við sig syðst á landinu fram að hádegi. Að öðru leyti er búist við bjartviðri sunnan- og vestanlands.

Gert er ráð fyrir að hvessi eftir því sem líður á daginn og að vindhraðinn verði um 10 til 18 m/s síðdegis. Það verður hvassast norðvestantil í dag en suðaustanlands á morgun.

Útlit er fyrir áframhaldandi kalda norðanátt fram á föstudag, en þá gerir Veðurstofan ráð fyrir að éljagangurinn muni ganga niður á norðanverðu landinu. Snjósöfnun verður nokkur næstu daga og má búast við „vetraraðstæðum norðantil á landinu“ eins og veðurfræðingur kemst að orði: hálku, skafrenningi og lélegu skyggni á köflum.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:
Norðanátt 10-18 m/s, hvassast með suðausturströndinni. Dálítil él á norðanverðu landinu, en léttskýjað sunnantil. Frost 1 til 8 stig.

Á fimmtudag:
Norðan 13-20 og él, en yfirleitt þurrt um landið sunnanvert. Frost 0 til 6 stig.

Á föstudag:
Norðanátt, víða 8-13 m/s, og bjart veður, en dálítil él norðaustantil á landinu. Áfram kalt í veðri.

Á laugardag (fyrsti vetrardagur):
Hæg breytileg átt, víða léttskýjað og frost um allt land.

Á sunnudag:
Vestlæg átt og skýjað en þurrt um vestanvert landið en léttskýjað austantil. Hlýnandi veður.

Á mánudag:
Vestanátt og skúrir, en þurrt um austanvert landið. Hiti 2 til 7 stig.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.