Innlent

Klessti á bíl og datt af vespunni á flótta undan lögreglu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Óhappið varð í Hafnarfirði í gærkvöldi.
Óhappið varð í Hafnarfirði í gærkvöldi. Vísir/vilhelm
Ökumaður vespu ók á bifreið og féll í götuna er hann reyndi að komast undan lögreglu í Hafnarfirði seint á tíunda tímanum í gærkvöldi. Maðurinn slasaðist í óhappinu og var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild til aðhlynningar.

Í dagbók lögreglu segir að maðurinn sé kærður fyrir að fylgja ekki fyrirmælum lögreglu, vanrækslu á merkjagjöf, aka yfir gatnamót gegn rauðu ljósi, of hraðan akstur, akstur undir áhrifum fíkniefna og vörslu fíkniefna. Þá var hann einnig sviptur ökuréttindum.

Seint á öðrum tímanum var lögreglu tilkynnt um bílveltu á Langholtsvegi í Laugardal. Ökumaðurinn hafði ekið á kyrrstæða bifreið og valt bifreið hans við það.

Enginn slasaðist í slysinu en ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Hann var vistaður í fangageymslu lögreglu.

Þá hafði lögregla afskipti af manni í Skeifunni seint í gærkvöldi þar sem hann stóð á miðju bílastæði og pissaði. Maðurinn var kærður fyrir brot á lögreglusamþykkt.

Um klukkan þrjú í nótt var lögregla kölluð til í verslun í Fossvogi. Þar hafði maður skemmt vörur sem hann ætlaði ekki að kaupa. Við afskipti lögreglu fundust ætluð fíknefni í fórum mannsins.

Þá var maður handtekinn á Kjalarnesi grunaður um eignaspjöll og hótanir.  Hann var vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn máls.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×