„Empire Strikes Back er fyrsta Star Wars-myndin sem ég sá og ég varð gjörsamlega dolfallinn þarna í litla bíóinu í Borgarnesi. Maður fór síðan í Kaupfélagið og keypti sér Star Wars-kalla,“ segir Jóhann sem meðtók strax það sem hann kallar „ákveðinn kúltúr“.

Ófeigum í Helstirnið komið
Og áfram leið tíminn og það er ekki fyrr en 2015 að íslenskir liðsmenn 501. herdeildarinnar, með stofnandann og foringjann Hilmi Kolbeins í fylkingarbrjósti í forláta Svarthöfða-búningi, verða á vegi Jóhanns.
„Eftir það fylgdist ég alltaf með þeim af hliðarlínunni. Áhuginn var alltaf til staðar og Hilmir skaut því reglulega á mig hvort ég ætlaði ekki að fara að koma mér í búning.
Það er svo í nóvember 2017 sem ég fæ heilablæðingu og var lagður inn á gjörgæslu og síðar heila- og taugadeild. Ég var næstum dáinn og ákvað þarna að láta drauminn rætast.“
Jóhann pantaði sér samfesting, stígvél, hanska, belti og „gunner-hjálm“ og fyrsti búningurinn hans var fullklár í febrúar í fyrra og það sama ár fór hann í sinn fyrsta leiðangur þegar herdeildin marseraði niður Laugaveginn 4. maí, á alþjóðlegum hátíðisdegi Stjörnustríðsnörda.

Star Wars- fjölskyldan
Ástríðufull áhugamál eru oftar en ekki ávísun á sambúðarárekstra en Mátturinn er með Jóhanni í blíðu og stríðu þótt lífsförunauturinn Svandís Sveinsdóttir hafi ekki deilt Stjörnustríðsáhuganum með honum.
„Ég vildi koma mér upp búningi í gínu og hafa sem stofustáss en hún sagði þvert nei. Það kæmi bara alls ekki til greina og hún myndi aldrei láta sjá sig í svona búningi.
Svandís fylgdi honum þó á nördasamkomu í fyrra þar sem sjö þýskir fulltrúar 501. deildarinnar voru mættir í glæsilegum búningum. „Hún hreifst svona rosalega af þessum flottu búningum og hversu mikil og náin vinátta er á milli okkar í hópnum og hún hefur verið á hliðarlínunni eins og ég áður.“
Börnin þeirra tvö hafa eðli málsins samkvæmt verið alin upp sem Stjörnustríðsnördar og vildu að sjálfsögðu fá að vera með. „Þannig að ég keypti Jawa-búninga á þau frá Bretlandi og þau breytast beinlínis í glyrnunga um leið og þau eru komin í þá,“ segir Jóhann um senuþjófana sína tvo sem skyggja alltaf á foreldrana þegar Stjörnustríðsfjölskyldan fer á kreik.
„Þau fengu langmesta athygli á Menningarnótt þar sem bæði útlendingar og Íslendingar voru alltaf að stoppa þau til þess að fá að taka myndir,“ segir Star Wars-pabbinn sem auðvitað er hið mesta ljúfmenni undir brynju útsendara hins illa keisaraveldis.