Innlent

Lögðu hald á fíkniefni, fíkniefnagróða og vopn

Kjartan Kjartansson skrifar
Maðurinn reyndist með ýmislegt vafasamt í fórum sínum þegar hann var stöðvaður í vikunni. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Maðurinn reyndist með ýmislegt vafasamt í fórum sínum þegar hann var stöðvaður í vikunni. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Vísir/Vilhelm
Lögreglumenn á Suðurnesjum fundu fíkniefni, nær hundrað þúsund krónur af ætluðum ágóða af sölu fíkniefna og vopn á heimili manns sem var stöðvaður við akstur í vikunni. Í bíl mannsins fannst meðal annars hafnaboltakylfa, piparúði og fjaðurhnífur.

Í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum kemur fram að maðurinn hafi ekið þrátt fyrir að hann hefði verið sviptur ökuréttindum. Hann heimilaði leit á heimili sínu og fundust þá fíkniefni í ísskáp og frysti. Lögreglan lagði hald á vopnin og féð vegna gruns um að það væri ágóði af fíkniefnasölu.

Þá kemur fram í tilkynningu að á annan tug ökumanna hafi verið kærður fyrir of hraðan akstur í vikunni, þar á meðal ökumaður hópferðabifreiðar sem ók frá Keflavíkurflugvelli. Einn ökumaður var stöðvaður sem hafði aldrei öðlast ökuréttindi. Nokkrir ökumenn til viðbótar voru teknir úr umferð vegna gruns um vímuefnaakstur.

Lögreglu barst einnig tilkynning um eignaspjöll í Háaleitisskóla í Reykjanesbæ. Þar höfðu verið brotnar tvær rúður, aðra þeirra með tvöföldu öryggisgleri, og fjögur útiljós. Stór steinn fannst innandyra framan við eina rúðuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×