Innlent

Indlandsforseti ræddi umhverfismál á Bessastöðum og í Háskóla Íslands

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Jón Atli Benediktsson rektor ásamt þeim Kovind og Ólafi Ragnari Grímssyni, fyrrverandi forseta, í Háskólanum.
Jón Atli Benediktsson rektor ásamt þeim Kovind og Ólafi Ragnari Grímssyni, fyrrverandi forseta, í Háskólanum. Vísir/Vilhelm
Ram Nath Kovind, forseti Indlands, og Savita Kovind forsetafrú eru nú í opinberri heimsókn á Íslandi. Þau sóttu íslensku forsetahjónin heim í morgun og hittu þar einnig ríkisstjórn Íslands.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, undirrituðu fyrir Íslands hönd samkomulag um undanþágu diplómata frá vegabréfsáritunum, samstarfssamning um sjálfbærar fiskveiðar og yfirlýsingu um menningarsamstarf á milli ríkjanna.

Að því loknu héldu þeir Guðni og Kovind ræður þar sem þeir fóru yfir víðan völl. Ræddu þeir um möguleika á auknu samstarfi ríkjanna og um umhverfismál.

Indversku forsetahjónin og þau íslensku á Bessastöðum.Vísir/Þórgnýr
Kovind var hins vegar hvergi nærri hættur að ræða um umhverfismálin heldur hélt hann næst í Háskóla Íslands þar sem hann hélt fyrirlestur um málaflokkinn.

Í kvöld munu indversku forsetahjónin fara aftur á Bessastaði til þess að snæða kvöldverð. Morgundagurinn er svo síðasti dagur heimsóknarinnar. Þá sækir forsetinn málþing um viðskipti á milli ríkjanna og forsetahjónin munu skoða sig um á Þingvöllum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×