Innlent

Klerkur fær yfir sig fúkyrðaflaum í tölvupóstum

Jakob Bjarnar skrifar
Séra Þórhallur furðar sig á ofsafengnum viðbrögðum sem hann hefur fengið vegna námskeiðs sem hann ætlar að halda um næstu helgi.
Séra Þórhallur furðar sig á ofsafengnum viðbrögðum sem hann hefur fengið vegna námskeiðs sem hann ætlar að halda um næstu helgi. visir/vilhelm
Séra Þórhallur Heimisson hefur fengið yfir sig fúkyrðaflaum og reiðilestur í tölvupóstum, jafnvel frá þekktum einstaklingum skrifaða á vinnutíma og merkta fyrirtækjum, vegna biblíunámskeiðs sem hann hyggst halda næstkomandi laugardag í Digraneskirkju. Námskeiðið ber yfirskriftina: „Allt sem þú vilt vita um Biblíuna.“

Séra Þórhallur, sem hefur á undanförnum árum starfað í Svíþjóð, var í viðtali í Bítinu um þetta óþol Íslendinga fyrir skoðunum annarra. Hann tekur fram að þessi viðbrögð við boðun námskeiðs síns séu alls ekki á eina leið, að mestu eru undirtektir jákvæðar.

„Já, elskuleg viðbrögð. En, ég hef einnig fengið tölvupósta þar sem menn hafa verið með blammeringar út í trú og þetta sem ég ætla að fjalla um,“ segir Séra Þórhallur. Honum þykir miður hversu mikið og vaxandi óþol sé á Íslandi gagnvart skoðunum annarra. Og þetta kom honum á óvart, hann segist hafa verið búinn að gleyma þessum ofsa eftir dvöl í Svíþjóð.

„Þetta virðist pirra menn alveg rosalega og þeir vilja ekki ræða málin heldur vera með blammeringar.“

Heyra má spjallið við Séra Þórhall hér neðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×