Innlent

Rigning um allt land næstu daga

Birna Dröfn Jónasdóttir og Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Ferðamenn í rigningu og dumbungi í Reykjavík.
Ferðamenn í rigningu og dumbungi í Reykjavík. fréttablaðið/stefán
Búast má við miklum rigningum um land allt í dag og næstu daga. Gefin hefur verið út gul viðvörun á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og á Faxaflóa en mögulegt er að slík viðvörun verði einnig gefin út fyrir norðanvert landið, Breiðafjörð og Vestfirði.

Þrátt fyrir að afar mikið hafi rignt á landinu í gær segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, að ekki sé um óeðlilega rigningu að ræða. „Þetta er bara haustveður, en það sem er óvenjulegt er frekar það hversu hlýtt það er, það getur farið alveg upp í tuttugu gráður fyrir norðan en oft er komið frost á þessum tíma,“ segir hann.

Búast má við að það dragi örlítið úr rigningunni í dag en í kvöld bætir aftur í. Búast má við miklum rigningum um allt land fram að helgi.

Þorsteinn segir ekki mikla hættu stafa af rigningunni en þó geti hrunið úr fjallshlíðum og ár bólgnað. Mælt er með að erlendir ferðamenn, og aðrir sem gera sér ferð upp á hálendi, hugi sérstaklega að viðvörunum og sýni athygli.

Einnig er mælt með að fólk hugi vel að niðurföllum og hreinsi frá þeim svo ekki safnist þar saman vatn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×