Innlent

Styttist í Íslandsheimsókn Pence

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, mun funda með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra þegar hann kemur hingað til lands á miðvikudag. Pence ætlar að ræða varnarmál á Norðurslóðum í heimsókn sinni. Varaforsetinn fundaði með forseta Póllands í dag en hélt svo þaðan í heimsókn til Írlands. 

Forsætisráðherra mun hitta bandaríska varaforsetann í húsi Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli að kvöldi miðvikudags, samkvæmt því sem kom fram á vef Stjórnarráðsins í dag. Þá verður Katrín komin til landsins af fundum í Svíþjóð og Danmörku.

Pence átti fund með Andrzej Duda, forseta Póllands, í Varsjá í dag. Undirrituðu þeir yfirlýsingu um samvinnu að uppbyggingu 5G-fjarskiptatækni en Bandaríkjamenn hafa sótt hart að bandamönnum sínum að versla ekki við kínverska tæknifyrirtækið Huawei, sem bandarískar öryggisstofnanir fullyrða að stundi njósnir fyrir kínversk stjórnvöld, á því sviði.

„Þessi yfirlýsing mun tryggja öryggi fjarskiptainnviða okkar. Með henni setjum við mikilvæg fordæmi fyrir önnur Evrópuríki í 5G-uppbyggingarmálum,“ sagði Pence.

Varaforsetahjónunum var svo vel tekið þegar þau lentu á Shannon-flugvelli á Írlandi. Pence fundar með með bæði forseta og forsætisráðherra Íra í Dyflinni á morgun.

Efnt hefur verið til mótmæla vegna komu Pence til Dyflinnar. Einna helst má rekja óánægju mótmælenda til afstöðu varaforsetans til þungunarrofs og réttinda hinsegin fólks.

Lögreglan hér heima býst einnig við mótmælum er Bandaríkjamaðurinn kemur til landsins í vikunni.

Embætti ríkislögreglustjóra fer með yfirstjórn aðgerða vegna heimsóknarinnar og hafa mannfjöldastjórnunarflokkar verið kallaðir til frá öðrum lögregluumdæmum. Þá mun sérsveitin annast lífvarðagæslu og öryggisviðbúnað í samvinnu við öryggisgæslu Pence. Öryggisverðir varaforsetans fá leyfi til þess að bera vopn.


Tengdar fréttir

Katrín og Pence funda á Keflavíkurflugvelli

Fundurinn verður haldinn í húsi Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli að kvöldi 4. september þegar forsætisráðherra kemur til landsins af fundum í Svíþjóð og Danmörku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×