Innlent

Framkvæmdir við nýja skíðalyftu komnar á fullt

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar

Framkvæmdir við gerð nýrrar stólalyftu á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli við Akureyri eru komnar á fullt. Allt kapp er lagt á að lyftan verði komin í gagnið í tæka tíð fyrir skíðavertíðina í vetur.

Þessa dagana má heyra ýmisleg iðnaðarhljóð úr hlíðum Hlíðarfjalls á Akureyri. Iðnaðarmenn, gröfur og steypubílar hafa komið saman í rúmlega þúsund metra hæð í fjallinu þar sem unnið er að því að reisa nýja stólalyftu.

Upphafspunktur nýju stólalyftunnar verður rétt fyrir neðan þar sem Fjarkinn, núverandi stólalyfta, endar. Hin nýja lyfta verður um kílómetri að lengd.

„Hún er að fara upp í 1020 metra hæð og byrjar hérna í 600 og eitthvað metrum. Þetta er talsverð hækkun. Um helmingi meiri hækkun en er á Fjarkanum,“ segir Guðmundur Karl Jónsson, forstöðumaður Hlíðarfjalls.

Guðmundur Karl Jónsson, forstöðumaður skíðasvæðisins.

Nýja stólalyftan mun auka afkastagetu svæðisins og gera efsta hluta þess mun aðgengilegri en áður.

„Þetta stækkar svæðið mun meira og það verða fjölbreyttari skíðaleiðir, sérstaklega efst uppi,“ segir Guðmundur og bætir við að það verði allt annað að komast upp en áður.

Upphaflega átti stólalyftan að komast í gagnið síðasta vetur en deilur við verktaka frestuðu verkinu. Nú er búið að leysa úr þeim en veðrið hefur tekið við sem helsti farartálminn.

„Maður veit aldrei, á þessum árstíma getur komið kafaldsbylur í október og þá er þetta allt búið,“ segir forstöðumaðurinn sem er kominn í þá skrýtnu stöðu að vona að ekki snjói of mikið á skíðasvæðinu fram af vetri svo hægt sé að klára framkvæmdir í tæka tíð fyrir skíðavertíðina.

„Maður er í sérstakri stöðu, maður vill fá snjó en ekki strax en svo vill maður fá mikinn snjó seinna. Þetta er smá púsluspil,“ segir Guðmundur Karl Jónsson, forstöðumaður skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli við Akureyri.

Fjarkinn er ein af skíðalyftunum í fjallinu.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.