Innlent

Íslendingur sagður hafa reynt að ræna flugvél

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vél Wizz Air var á leið frá Ungverjalandi til Íslands þegar maðurinn reyndi að brjótast inn í flugstjórnarklefann.
Vél Wizz Air var á leið frá Ungverjalandi til Íslands þegar maðurinn reyndi að brjótast inn í flugstjórnarklefann. Getty/SOPA Images
Farþegaþotu Wizz Air sem var á leið frá Ungverjalandi til Íslands var nauðlent á Sola-flugvelli í Noregi í morgun eftir að flugmenn tilkynntu um tilraun til flugráns.

Á vef TV2 í Noregi er haft eftir lögreglu að um hafi verið að ræða íslenskan mann á sjötugsaldri sem hafi gert tilraun til að brjótast inn í flugstjórnarklefa vélarinnar. 

Töluverður viðbúnaður var á Sola-flugvelli vegna málsins og segir í frétt TV2 að lögreglu- og slökkviliðsmenn hafi verið ræstir út til að bregðast við yfirvofandi nauðlendingu. Vel gekk að lenda vélinni og fóru lögreglumenn fóru um borð til að handtaka manninn.  Hann á ekki að hafa sýnt neina mótspyrnu. Norska ríkisútvarpið segir að maðurinn beri við minnisleysi vegna lyfjanotkunar.

„Við höfum handtekið mann á sjötugsaldri. Enginn slasaðist. Reynt er að fá úr því skorið hvað gerðist,“ skrifar lögreglan í suðvestur Noregi á Twitter-síðu sinni.

Hann mun hafa verið ölvaður og var fluttur til Stafangurs í varðhald. Ferð vélarinnar var síðan framhaldið til Íslands og er hún nú í loftinu. Áætluð lending vélarinnar í Keflavík er 11:15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×