Enski boltinn

Segja Harry Maguire hafa getað fengið þrettán milljónum meira á viku hjá Man. City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Maguire labbar út á Old Trafford í fyrsta sinn.
Harry Maguire labbar út á Old Trafford í fyrsta sinn. Getty/Matthew Peters
Harry Maguire er orðinn leikmaður Manchester United og um leið dýrasti varnarmaður heims. Hann hefði líka geta orðið launahæsti varnarmaður heims en vildi ekki vera bláu megin í Manchester borg.

Manchester United keypti þennan 26 ára miðvörð frá Leicester City fyrir 80 milljónir punda rétt fyrir tímabil og það kom fram í viðtölum við hann að það hafi verið æskudraumur hans að spila fyrir bæði enska landsliðið og Manchester United. Nú hafa báðir þessir draumar hans ræst.

„Mig dreymdi alltaf að labba út á bæði Wembley og Old Trafford þegar ég var strákur. Ég er mjög stoltur af sjálfum mér að vera kominn í svona stóran klúbb,“ sagði Harry Maguire við Manchester Evening News.





Pep Guardiola hjá Manchester City vildi einnig fá Harry Maguire og City var tilbúið að bjóða honum mun betri samning.

Samkvæmt frétt í Daily Star þá bauð Manchester City enska landsliðsmiðverðinum 278 þúsund pund í vikulaun eða tæpar 42 milljónir íslenskra króna.

Samningur hans við Manchester United hljómar aftur á móti „aðeins“ upp á 190 þúsund pund á viku eða tæpar 29 milljónir íslenskra króna.

Hér munar 88 þúsund pundum á viku eða rúmum 13 milljónum íslenskra króna. Það gera 53 milljónir á mánuði og 630 milljónir á ári.

Maguire vildi um fram allt komast til Manchester United og þessi ást hans á félaginu mun aðeins auka vinsældir hans meðal stuðningsmannanna á Old Trafford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×