Innlent

Hvalir hafa varla sést í Eyjafirði í heilan mánuð

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Hnúfubakar hafa verið sjaldséðir í Eyjafirði undanfarið.
Hnúfubakar hafa verið sjaldséðir í Eyjafirði undanfarið. fréttablaðið/Vilhelm
„Við höfum aldrei séð neitt þessu líkt,“ segir Tess Hudson sem sér um hvalarannsóknir hjá hvalaskoðunarfyrirtækinu Ambassador á Akureyri. Undanfarinn mánuð hafa mjög fáir hvalir sést í Eyjafirði. „Við vitum ekki nákvæmlega hvað er að gerast í lífríkinu en það hefur verið miklu minni fiskur og áta í firðinum undanfarið.“ Tess segir að í fyrra hafi komið tveggja vikna tímabil þar sem hvalirnir héldu sig utar í firðinum en sú lægð hafi verið mun minni.Þeir hvalir sem þó sjást halda sig aðallega nyrst í firðinum að sögn Tess. Merktir hvalir sem Ambassador fylgist með hafa farið bæði vestur og austur fyrir Eyjafjörð til að finna æti. Sumir alla leið til Grænlands.Mikill fjöldi ferðamanna heimsækir Akureyri til þess að fara í hvalaskoðun og um 200 skemmtiferðaskip koma þar við. Til að bregðast við þessu hruni sigla skip Ambassadors mun lengra norður og ferðirnar lengjast samkvæmt því eða þau sigla frá Dalvík. Þá sjást enn þá stundum litlir hvalir eins og hrefnur og höfrungar.Sömu sögu er að segja af öðrum hvalaskoðunarfyrirtækjum. Norð­ur­sigling frá Húsavík hefur haft aðstöðu á Hjalteyri í Eyjafirði, þar sem flestir hvalir hafa haldið sig undanfarin ár. Þeir sigla nú ekki þaðan og beina gestum til Húsavíkur þar sem nóg hefur verið af hval í Skjálfanda. Ekki náðist í forsvarsmenn Eldingar en í svari fyrirtækisins á Trip­advisor sést að lítið hefur sést til hvala undan­farið.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.