Innlent

Vinn­u­­brögð SÍ beri keim af kúg­un­ar­til­burð­um

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Blaðamannafélagið fordæmir vinnubrögð Seðlabankans í málinu.
Blaðamannafélagið fordæmir vinnubrögð Seðlabankans í málinu. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari.
Dómsmál Blaðamannafélag Íslands fordæmir fráleita tilraun Seðlabanka Íslands til að þagga niður mál sem tengist launakjörum og hlunnindum sem bankinn veitti þáverandi framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits bankans.

Seðlabankinn hefur stefnt Ara Brynjólfssyni, blaðamanni Fréttablaðsins, fyrir dóm vegna fyrirspurnar hans til bankans um umrædd launakjör og hlunnindi framkvæmdastjórans. Blaðamannafélagið krefst þess að Seðlabankinn láti af þessum fyrirætlunum og afhendi gögnin strax.

Blaðamannafélagið segir vinnubrögð bankans bera keim af leyndarhyggju og kúgunartilburðum sem eigi ekki að viðgangast hjá opinberum stofnunum.

Um sé að ræða mál sem varðar almenning og er það ólíðandi að blaðamenn þurfi að standa í langvinnum, dýrum og tímafrekum málarekstri til að fá upplýsingar frá opinberum aðilum.

Mál bankans gegn Ara verður þingfest klukkan eitt í dag í Héraðsdómi Reykjaness. Lögmanni Ara var birt réttarstefna í gær en málið höfðar Seðlabankinn til ógildingar á úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem kveðinn var upp 3. júlí síðastliðinn.

Í úrskurðinum er kveðið á um skyldu Seðlabankans til að afhenda Ara umbeðin gögn um námssamning bankans við fyrrverandi framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlitsins. Með úrskurði fyrr í vikunni féllst héraðsdómur hins vegar á beiðni Seðlabankans um flýtimeðferð málsins.

Búist er við að í þinghaldi í dag verði lögmönnum veittur tveggja vikna frestur til að skila greinargerðum. – ilk, aá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×