Innlent

Athugun vegna kjöts ekki hafin

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Deilt hefur verið um lambakjötsskort. Fréttablaðið/Anton Brink
Deilt hefur verið um lambakjötsskort. Fréttablaðið/Anton Brink
Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort hafin verður formleg athugun á meintu samráði afurðastöðva í kindakjötsframleiðslu.

Í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins segir að eftirlitið hafi móttekið erindi vegna málsins frá Félagi atvinnurekenda (FA), en erindi frá Samtökum verslunar og þjónustu sem boðað hafi verið í fjölmiðlum hafi ekki borist stofnuninni.

„Eftirlitið mun á næstunni taka afstöðu til hvort og þá með hvaða hætti þessi mál verða tekin til formlegrar athugunar,“ segir í svari Samkeppniseftirlitsins.

Í erindi sem FA sendi til SKE í síðustu viku er þess farið á leit að eftirlitið hefji rannsókn á háttsemi afurðastöðva í tengslum við útflutning á lambakjöti, sem að mati félagsins þjóni þeim tilgangi að stuðla að skorti og verðhækkunum á vörum.

Í gær var tilkynnt um breytta skoðun ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara sem leggst nú gegn því að tollkvótar verði opnaðir fyrir lambahryggi, en hún komst að annarri niðurstöðu í síðustu viku þegar rannsókn hennar leiddi í ljós að það væri ekki nægilegt framboð til staðar.

Eftir fyrri niðurstöðu nefndarinnar gerðu afurðastöðvar ráðstafanir sín á milli til að laga birgðastöðuna og ráðherra fól nefndinni í kjölfarið að rannsaka málið að nýju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×