Innlent

Um tuttugu hvalir dauðir í fjörunni

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá aðgerðum í gærkvöldi.
Frá aðgerðum í gærkvöldi. Vísir/Sunna
Um tuttugu hvalir eru dauðir í fjörunni við Útskálakirkju í Garði en björgunarsveitarmönnum tókst að bjarga um þrjátíu þeirra sem strönduðu þar í gærkvöldi. Sjávarlíffræðingur segir ekki eina haldbæra ástæðu fyrir því hvers vegna grindhvalirnir ákváðu að synda upp í fjöruna. Líklega hafi þeir verið í fæðuleit þegar stórstreymt var en svo fjarað hratt undan þeim.

Edda Elísabet Magnúsdóttir sjávarlíffræðingur segir mikið um grindhvali úti fyrir vestanvert landið sem hætti sér oft á tíðum ansi nálægt landi. Breytingin hafi orðið á útbreiðslu þeirra og þeir virðist vera að sækja í ný og varhugaverð fæðusvæði sem þeir þekkja ekki vel.

Hún segir hvalina í mikilli lífshættu þegar þeir stranda. Dýrin eru um tonn að þyngd og ekki gerðir fyrir þurrt land. Líkami þeirra hafi aðlagast því að vera í sjó þar sem þeir eru léttari en þegar komið er á þurrt land eykst þyngd þeirra til muna og álagið á líffærin um leið. Það geti valdið því að þeir verða fyrir losti vegna álags og fara í hjartastopp.

Þeir eiga einnig hættu á að ofþorna í þessum aðstæðum og geta þá ekki stýrt hitastigi líkamans eins vel og í sjónum. Sumir engjast mikið um fjörunni og valda sér miklum skaða þannig. Edda segir að svo virðist vera að kálfarnir þoli þetta álag ekki eins vel og fullorðnu dýrin, þrátt fyrir að vera léttari á sér.

Hún segir björgunarsveitarmenn hafa unnið mikið og öflugt starf við að halda hvölunum á lífi í nótt og koma þeim á flot í morgun þegar flæddi að.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×