Innlent

Sex hræ talin vera enn í fjörunni

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Frá aðgerðum á vettvangi.
Frá aðgerðum á vettvangi. Víkurfréttir

Enn er talið að sex hræ grindhvala séu í fjörunni í Garði en björgunarsveitarmönnum tókst að losa átta hræ í gær. Hræin voru dregin langt út á sjó þar sem stungið var á maga þeirra og þeim sökkt. Stefnt er að því að reyna klára að losa hræin í dag.

Um fimmtíu grindhvalir strönduðu í fjörunni við Útskálakirkju í Garði á föstudagskvöld. Hátt í hundrað björgunarsveitarmenn héldu hvölunum votum og var svo unnið að því að losa þá eftir að flæddi að. Um þrjátíu dýrum var bjargað en á annan tug drápust. Í gærkvöldi hófst vinna við að reyna losa hræ þeirra sem ekki tókst að bjarga út á haf. Bergný Sævarsdóttir, staðgengill bæjarstjóra hjá Suðurnesjabæ, segir að fyrstu aðgerðir hafi gengið vel.  

„Menn voru að störfum í gær og langt fram á nótt og náðu allavega að draga út átta hræ. Það er eitthvað á reiki hvað það eru mörg hræ eftir í fjörunni. Eitthvað af hræjunum losnuðu af sjálfsdáðum, þannig að þau fóru sjálf á flot og við gætum búist við því að þau skiluðu sér aftur á land," segir Bergný. 

Hún útskýrir að björgunarsveitarmenn hafi dregið hræin langt út á sjó. „Þar sem stungið var á magann á þeim og þeim sökkt,“ segir Bergný. 

Talið er að sex hræ séu enn í fjörunni. „Við munum funda aftur á eftir að meta stöðuna. Björgunarsveitarmenn munu skoða hvort þeir haldi áfram seinna í dag og í kvöld og svo þurfum við að meta hvort það verði eitthvað eftir sem við þurfum að láta urða," segir Bergný Sævarsdóttir, staðgengill bæjarstjóra hjá Suðurnesjabæ.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.