Innlent

Vill að ríkið komi að kjarnsýrurannsóknum

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Jóhannes V. Reynisson.
Jóhannes V. Reynisson. Fréttablaðið/Pjetur
Samtökin Blái naglinn skora á Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og ríkisstjórn Íslands að koma að kjarnsýrurannsóknum með fjármögnun. Jóhannes V. Reynisson, formaður félagsins, segir um tímamótarannsóknir að ræða sem gagnist bæði körlum og konum.

Jóhannes vill ekki nefna hvaða upphæð yrði ásættanleg á þessu stigi en samtökin sjálf hafa sett 7,5 milljónir í verkefnið. Vonast hann einnig eftir stuðningi frá almenningi og fyrirtækjum.

Samkvæmt bréfi sem Jóhannes sendi eru kjarnsýrurannsóknir á blóðvökva ný aðferð til að greina krabbamein snemma með mælingu breyttra DNA- og RNA-sameinda úr hinum ýmsu líffærum. Ef verkefnið yrði að veruleika færu rannsóknirnar fram á Landspítalanum.

„Þetta er algjör bylting,“ segir Jóhannes. „Þessar rannsóknir lúta ekki aðeins að krabbameini heldur öðrum sjúkdómum líka.“ Þá efast hann ekki um að rannsóknirnar myndu skila tilætluðum árangri.

„Það er ekkert gert í þessum málum fyrir okkur strákana. Þegar kemur að konum er aðallega litið til leg- og brjóstakrabbameins. En það eru miklu fleiri líffæri í líkamanum, bæði hjá konum og körlum,“ segir Jóhannes.

Aðspurður um viðbrögð segist Jóhannes vera nýbúinn að kynna þetta fyrir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra og að átakið sé rétt að fara af stað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×