Innlent

Finnst það engin forréttindi að heyja í þessari náttúruumgjörð

Kristján Már Unnarsson skrifar
Örn Jónasson, bóndi á Nesjum við Þingvallavatn, í viðtali við Stöð 2.
Örn Jónasson, bóndi á Nesjum við Þingvallavatn, í viðtali við Stöð 2. Stöð 2/Einar Árnason.
Afar misjafnt er milli sunnlenskra sveita hve snemma bændur hefja heyskap. Bóndinn á Nesjum í Grafningi hóf fyrsta slátt í síðustu viku og segist mánuði á eftir mörgum öðrum á Suðurlandi, - ekki aðeins sé sveitin kaldari heldur hafi þurrkar í sumar einnig hamlað sprettu. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.

Séð yfir Bæjarvík sem bærinn Nesjar stendur við. Bæjarhúsin eru í skógarlundi fyrir miðri mynd. Hestvík til vinstri.Stöð 2/Einar Árnason.
Ef velja ætti fegurstu bújarðir landsins má telja líklegt að margir myndu hafa Nesjar í Grafningi ofarlega á slíkum lista. Túnin teygja sig um nesin við suðvestanvert Þingvallavatn. Eyjarnar á vatninu, Nesjaey og Sandey, eru skammt undan og fjær blasa við fjöll eins og Botnssúlur, Skjaldbreiður og Hrafnabjörg.

Traktor Nesjabóndans snýr heyinu. Fyrir miðri mynd má greina Arnarklett og síðan Nesjaey. Fjær er Sandey. Í fjallahringnum má sjá Botnssúlur, Ármannsfell, Skjaldbreiði, Hrafnabjörg og Kálfstinda, en einnig Arnarfell og Miðfell við vatnið.Stöð 2/Einar Árnason.
Örn Jónasson bóndi er þó ekki að mikla fyrir sér náttúrufegurðina sem aðrir dásama. 

„Maður er vanur þessu frá æsku. Þetta er bara vaninn. Það kemur upp í vana þar sem þú ert,“ segir Örn og kveðst ekki líta á það sem forréttindi að vinna í þessu umhverfi. 

„Þetta er bara vinna eins og annað,“ segir hann. 

„Allir verða að yrkja eitthvað.“

Séð yfir Nesjar í átt til Hengils og Dyrafjalla. Nesjavallavirkjun í krikanum til vinstri. Hestvík til hægri en Þorsteinsvík og Stapavík til vinstri.Stöð 2/Einar Árnason.
Það vekur athygli okkar að meðan margir aðrir bændur á Suðurlandi eru komnir í annan slátt hófst heyskapur hér í síðustu viku. Bóndinn á Nesjum segist hafa byrjað slátt þann 17. júlí. 

„Þetta er allt svo kaldara hérna heldur en bara niður undir Selfoss. Það er mánuði á eftir hérna. Sérðu bara; ég er svo nálægt fjöllum,“ segir Örn og segir miklu muna á hitanum.

Heyskapur á Nesjatúnum. Horft í átt til Hestvíkur.Stöð 2/Einar Árnason.
„Og svo bara þurrkarnir í sumar. Það bara spratt ekki.“ 

-En hvernig lítur þetta þá út núna? 

„Jaaa. Þetta er allt í lagi. Það þýðir ekkert að vera að barma sér. Það kemur ekkert fyrir því.“ 

Hér má sjá viðtalið við Örn bónda:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×