Innlent

Jarðarberjahúsið sprakk og Einar bóndi opnaði bílaverkstæði

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Einar Pálsson og garðyrkjufjölskyldan í Sólbyrgi siglir nú í mótbyr.
Einar Pálsson og garðyrkjufjölskyldan í Sólbyrgi siglir nú í mótbyr. Fréttablaðið/Ernir

Framleiðsla á jarðarberjum í Sólbyrgi á Kleppjárnsreykjum í Borgarfirði hefur legið niðri eftir að plönturnar drápust er gróðurhúsið splundraðist í vetrarveðri og gríðarlegt rigningarsumar fylgdi í kjölfarið.

„Við lentum í óveðri í febrúar í fyrra og þá drápust plönturnar sem við ætluðum að nota um vorið. Svo fengum við seint og síðar meir loksins plöntur fyrir náð og miskunn og þá stytti ekki upp í níutíu daga. Við vorum því að lýsa allt sumarið. Og þá bara situr ekkert eftir af þessu,“ segir Einar Pálsson, garðyrkjubóndi í Sólbyrgi.

Einar segir þó standa til að vera í meiri garðyrkju. „En við höfðum bara ekki ráð á að kaupa plöntur í vetur eftir svona lélegt ár þannig að það er bara verið að reyna að redda sér dag fyrir dag,“ segir hann.

Einhver ræktun er þó enn í gangi í Sólbyrgi. Segir Einar að þau hafi fengið jarðarber í eitt lítið hús. Einnig er eitt hús með tómötum og að auki eru ræktaðar gúrkur.

„Við fórum í mikla fjárfestingu til að vera í vetrarræktun en rafmagnið hjá Rarik bara hækkar og hækkar og hækkar og við erum því miður bara hætt að sjá grundvöllinn fyrir því. Maður er fram á miðjan dag að vinna fyrir Rarik og þá er allt hitt eftir. Við erum ekki með neitt starfsfólk, erum bara í þessu, við og dóttir okkar.“

Einar er bifvélavirki og kveðst hafa dustað rykið af þeirri menntun. „Við opnuðum bílaverkstæði í vetur og erum bara að reyna að lifa af. Svo er hugmyndin að geyma hjólhýsi og fellihýsi í vetur og sinna viðhaldi á því. Við ætlum að reyna að vera farin að standa í lappirnar næsta vor svo við getum verið með jarðarber næsta sumar í einhverju alvöru magni.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.