Innlent

Skjálftinn fannst frá Hvammstanga í vestri til Húsavíkur í austri

Birgir Olgeirsson skrifar
Skjálftinn var 4,3 að stærð en upptök hans voru um 20 kílómetrar norðnorðvestur af Siglufirði.
Skjálftinn var 4,3 að stærð en upptök hans voru um 20 kílómetrar norðnorðvestur af Siglufirði. Vísir/Egill
Skjálftinn sem reið yfir á Norðurlandi í nótt fannst víðs vegar um Norðurlandið, allt frá Hvammstanga í vestri og að Húsavík í austri. Skjálftinn var 4,3 að stærð en upptök hans voru um 20 kílómetrar norðnorðvestur af Siglufirði. Veðurstofu Íslands bárust yfir 130 tilkynningar vegna skjálftans en hvorki Veðurstofunni né lögreglunni á Norðurlandi eystra bárust tilkynningar um slys á fólki eða eignatjón. Búast má við því að eftirskjálftar muni koma í kjölfarið. Að svo stöddu hafa nokkrir eftirskjálftar mælst, sá stærsti 2,7 að stærð. Upptök skjálftanna virðast vera á um 8-10 kílómetra dýpi.

Skjálftinn varð vegna jarðskorpuhreyfinga á Tjörnesbrotabeltinu. Staðsetning skjálftans er þar sem suðurendi Eyjafjarðaráls og vesturhluti Húsavíkur-Flateyjarmisgengisins mætast.

Öflug jarðskjálftahrina varð á svipuðum slóðum haustið 2012. Stærstu skjálftarnir í þeirri hrinu voru 5,6 og 5,4 að stærð. Árið 2018 urðu þrír skjálftar stærri en 3,0 að stærð á svæðinu, en skjálftinn í nótt er sá fyrsti síðan 2012 sem er stærri en 4,0 að stærð. Því má segja að skjálftar af þessarri stærðargráðu eru þekktir á þessu svæði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×