Innlent

Kvöldfréttir Stöðvar 2

Ritstjórn skrifar
Aukið sætaframboð í flugi myndi breyta landslagi íslenskrar ferðaþjónustu, en mikil óvissa ríkir um afkomu fyrirtækja í greininni í haust að mati formanns Samtaka ferðaþjónustu. Hópur fjárfesta ásamt tveimur fyrrverandi stjórnendur WOW air vinna að því, í samfloti við írskan fjárfestingarsjóð, sem tengist lággjaldaflugfélaginu Ryanair, að stofna nýtt Íslenskt flugfélag. Fjallað verður nánar um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 klukkan 18:30.

Kona sem vistuð var í fangageymslu í nótt, vegna elds sem kom upp í stúdentaíbúð í gær, hefur verið látin laus. Aðstoðaryfirlögregluþjónn tjáir sig ekki um hvort grunur sé um íkveikju, en konan sem um ræðir er ekki leigutaki íbúðarinnar. Upplýsingafulltrúi Félagsstofnunar stúdenta segir riftun á leigusamningi koma til greina hafi leigutaki íbúðarinnar framleigt hana andstætt reglum stofnunarinnar. Fjallað verður nánar um málið í kvöldfréttum. Þá verður rætt við lögreglu um fjölgun í hópi þeirra sem framvísa fölsuðum skilríkjum í því skyni að fá íslenska kennitölu til að geta starfað hér á landi.

Einnig verður rætt við tannlækni um tannskemmdir sem fylgja orkudrykkjaþambi og bóndann Sigríði sem er fyrsti einstaklingurinn til að breyta nafni sínu á grundvelli nýrra laga um kynrænt sjálfræði. Þetta og margt fleira í fréttum á samtengdum rásum Bylgjunnar, Stöðvar 2 og Vísis klukkan 18:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×