Innlent

Mislingar greindust í Reykjavík

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Maðurinn sem smitaðist hefur ekki skjalfesta bólusetningu gegn mislingum.
Maðurinn sem smitaðist hefur ekki skjalfesta bólusetningu gegn mislingum. Vísir/Vilhelm

Fullorðinn einstaklingur sem búsettur er á höfuðborgarsvæðinu greindist með mislinga fyrir nokkrum dögum. Frá þessu er greint á vef landlæknis.

Þar segir að manneskjan sem greindist með sjúkdóminn hafi verið á ferðalagi í Úkraínu í júnímánuði og hefur hún ekki skjalfesta bólusetningu gegn mislingum.

Sjúklingnum heilsast vel eftir atvikum og þá er ekki vitað um fleiri smit. Mislingafaraldur hefur geisað í Úkraínu á undanförnum árum og á fyrstu tveimur mánuðum ársins 2019 greindust þar rúmlega 25.000 einstaklingar með mislinga.

Á vef landlæknis segir að ekki sé búist við mislingafaraldri þótt stöku mislingatilfelli geti sést til viðbótar:

„Í tengslum við þetta tilfelli er unnið skv. áætlunum sem notaðar voru í mislingafaraldrinum hér á landi í febrúar/mars sl.

Haft hefur verið samband við þá einstaklinga sem kunna að hafa smitast af þessum einstaklingi og viðhafðar viðeigandi ráðstafanir eftir atvikum sem geta falist í sóttkví, bólusetningu eða blóðprófum.

Einnig hefur heilbrigðisþjónustan verið upplýst og aðilar beðnir um að vera á varðbergi gagnvart hugsanlegum mislingatilfellum. Ekki er búist við að faraldur sé í uppsiglingu þó stöku mislingatilfelli geti sést til viðbótar. Þátttaka í mislingabólusetningu er hér ágæt sem á að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu.

Um 95% einstaklinga á aldrinum tveggja til 18 ára hafa verið bólusettir gegn mislingum og rúmlega 50% einstaklinga á aldrinum eins til tveggja ára.

Þess ber að geta að mælt er með fyrstu bólusetningu við 18 mánaða aldur. Þátttaka í bólusetningu einstaklinga eldri en 18 ára er ekki þekkt því miðlægar upplýsingar í þessum aldurshópi liggja ekki fyrir. Almenn bólusetning gegn mislingum hófst hér á landi 1976 og talið er að flestir fæddir fyrir 1970 hafi fengið mislinga og þurfi því ekki bólusetningu.

Sóttvarnalæknir hvetur alla sem hyggja á ferðalag til landa þar sem mislingar geisa að huga vel að bólusetningum áður en ferð er hafin.“

Bent er á upplýsingar um útbreiðslu mislinga á vef Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) og upplýsingar um mislinga á vef landlæknis.


Tengdar fréttir

Mislingar: Rúmlega 20 milljónir barna óbólusett ár hvert

Á átta ára tímabili, frá 2010 til 2018, er talið að um 170 milljónir barna hafi ekki verið bólusett gegn mislingum eða rúmlega 20 milljónir barna ár hvert. Þetta kemur fram í frétt Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF).

Á tánum þrátt fyrir ekkert staðfest nýsmit

Hvert nýtt tilfelli mislinga færir viðbragðsstöðu heilbrigðisyfirvalda aftur um þrjár vikur. Svo virðist sem ekki séu til miklar birgðir af bóluefni í Evrópu. Sóttvarnalæknir segir alla hafa staðið sig vel í að berjast gegn faraldri.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.