Innlent

Viðrar vel í höfuðborginni um helgina

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hitinn gæti náð 19 stigum í borginni á morgun.
Hitinn gæti náð 19 stigum í borginni á morgun. Vísir/vilhelm

Helgarveðrið lítur vel út á Suður- og Vesturlandi að sögn veðurfræðings á Veðurstofunni. Hann áætlar að þar verði bjartviðri og hiti á bilinu 13 til 18 stig. Engu að síður séu einhverjar líkur á „ágætis síðdegisskúrum“ á laugardag.

Það má hins vegar gera ráð fyrir norðaustanátt í dag og verður hvassast vestan- og norðvestantil. Búast má við rigningu um austanvert landið í dag og segir veðurfræðingur að svipað verði upp á teningnum þar á morgun. Áfram verði skýjað á Austurlandi og lítilsháttar úrkoma með hita á bilinu 7 til 13 stig.

Sjá einnig: Júní á enn þá vinninginn þrátt fyrir sólina í dag

Hins vegar verður líkast til þurrt að kalla sunnan- og vestanlands. Ætla má að veðrið haldist nokkuð óbreytt fram yfir helgi; hitinn verður á svipuðu róli, súld á Austurlandi, þurrt að mestu á Norðurlandi og stöku síðdegisskúrir sunnan- og vestantil.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:
Austan og norðaustan 5-10. Súld suðaustantil, en síðdegisskúrir um sunnanvert landið, annars þurrt að mestu. Hiti 7 til 18 stig, hlýjast suðvestanlands.

Á sunnudag:
Austanátt og dálítil væta, en þurrt að mestu um landið norðvestanvert. Hiti breytist lítið.

Á mánudag:
Norðaustanátt og lítilsháttar rigning eða súld austantil, skúrir um landið SV-vert, en yfirleitt þurrt norðvestantil á landinu. Áfram svipað hitastig.

Á þriðjudag:
Norðaustlæg átt og úrkomulítið, en síðdegisskúrir á Suðurlandi. Hiti frá 8 til 16 stig, hlýjast á Vesturlandi.

Á miðvikudag:
Norðlæg eða breytileg átt og dálítil væta um sunnanvert landið, en annars þurrt að kalla. Hiti 6 til 15 stig, hlýjast vestantil.

Á fimmtudag:
Útilit fyri hæga breytilega eða austlæga átt, bjart veður og svipaðan hita.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.