Innlent

Taldi mann skulda sér bjór, hótaði honum ofbeldi og reyndi að ræna hann

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Glæpurinn var framinn í Vestmannaeyjum í mars árið 2016.
Glæpurinn var framinn í Vestmannaeyjum í mars árið 2016. Fréttablaðið/Óskar P. Sigurðsson
Landsréttur dæmdi í dag karlmann á þrítugsaldri í sex mánaða fangelsi fyrir að hafa reynt að ræna mann og hótað honum líkamsmeiðingum vegna meintrar bjórskuldar. Meintur samverkamaður mannsins, sem héraðsdómur dæmdi í sex mánaða fangelsi, var sýknaður í Landsrétti.

Í dómi kemur fram að maðurinn hafi gert tilraun til ráns með því að hafa aðfaranótt 18. mars árið 2016 hótað manni líkamsmeiðingum og farið með hann að hraðbanka Landsbankans í Vestmannaeyjum. Þar hafi maðurinn reynt að neyða fórnarlambið til að taka fjármuni út úr hraðbankanum.

Þá kom fram í framburði brotaþola við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti að maðurinn hefði vikið sér að brotaþola eftir að þeir yfirgáfu veitingastað og sagt hann skulda sér bjór. Þegar brotaþoli hafi neitað því hafi maðurinn þrifið í hann og sagt honum að þeir þyrftu að fara í bankann og sækja peninga. Í framhaldinu hafi maðurinn teymt hann sem leið lá í bankann og hótað honum ofbeldi.

Maðurinn var dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brotin. Þá var honum gert að greiða rúmar 1,2 milljónir krónur í sakarkostnað málsins í héraði og áfrýjunarkostnað. Þá var honum einnig gert að greiða málsvarnarlaun verjenda sinna í héraði og í Landsrétti, samtals tæpar 1,2 milljónir króna.

Hinum manninum, sem hlaut dóm fyrir aðild sína að málinu í héraðsdómi, var gefið að sök að hafa beðið fyrir utan anddyri bankans og staðið vörð þegar verknaðurinn átti sér stað. Hann var sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins í Landsrétti en sannað þótti að ekki hefði verið um samverknað mannanna að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×