Innlent

Íslendingar jákvæðir í garð Evrópusambandsins

40,7 prósent segjast vera jákvæð gagnvart ESB
40,7 prósent segjast vera jákvæð gagnvart ESB Vísir/EPA

Fyrirtækið Maskína hefur gert viðamikla könnun fyrir utanríkisráðuneytið um viðhorf Íslendinga til alþjóðasamstarfs.

Miðað við könnunina eru Íslendingar tiltölulega jákvæðir í garð Evrópusambandsins. Þannig segjast 40,7 prósent vera jákvæð gagnvart ESB og 27,5 prósent vera neikvæð gagnvart sambandinu. Hins vegar segjast aðeins 31,6 prósent hlynnt inngöngu Íslands í ESB, 25,4 prósent segjast í meðallagi hlynnt inngöngu og 43,0 prósent segjast andvíg.

Nokkur munur er á afstöðu eftir kynjum og búsetu. Til dæmis segjast 40,8 prósent þeirra sem búa í Reykjavík hlynnt inngöngu en 11,9 prósent á Austurlandi hafa sömu afstöðu og þar segjast 61,4 prósent andvíg inngöngu í ESB á móti 31,6 prósentum í Reykjavík.

Úr könnun Maskínu fyrir Utanríkisráðuneytið. Grafík/Fréttablaðið

Mikill munur er á afstöðu eftir því hvað stjórnmálaflokk þátttakendur segjast mundu kjósa ef kosið yrði til Alþingis nú. Langminnstur stuðningur við inngöngu Íslands í ESB er meðal Framsóknarmann. Enginn þeirra kveðst styðja inngöngu Íslands í ESB og 84,3 prósent segjast andvíg inngöngu.

Af þeim sem kjósa Miðflokkinn segjast 14,0 prósent jákvæð gagnvart inngöngu og 74,4 prósent eru andvíg.

Jákvæðastir gagnvart inngöngu í ESB eru fylgismenn Viðreisnar, 76,5 prósent, og stuðningsmenn Samfylkingar þar sem 73,3 prósent segjast hlynnt inngöngu.

Þegar spurt er hversu jákvætt fólk sé gagnvart aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagshagssvæðið (EES) eru það fylgismenn Viðreisnar sem mælast jákvæðastir, 87,7 prósent þeirra segjast jákvæð gagnvart aðildinni. Nefna má að af þeim sem kjósa Miðflokkinn segjast 43 prósent jákvæð og 32 prósent neikvæð gagnvart aðild landsins að EES.

Þess má geta að samkvæmt könnuninni eru Íslendingar gríðarlega jákvæðir gagnvart því að Ísland taki virkan þátt í norrænu samstarfi. Þannig segjast 92 prósent jákvæð og 7,6 prósent í meðallagi jákvæð gagnvart því samstarfi en aðeins 0,4 prósent svarenda segjast neikvæð.

Þessi frétt birtist fyrst í Fréttablaðinu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.