Innlent

Útfararstjóri segir bálförum fjölga vegna umhverfissjónarmiða

Pálmi Kormákur skrifar
Fjöldi bálfara á Íslandi hefur aukist gríðarlega á síðustu misserum.
Fjöldi bálfara á Íslandi hefur aukist gríðarlega á síðustu misserum.

„Þessi aukning gæti vel haft með vitundarvakningu fólks um umhverfismál að gera. Oft talar fólk um að það vilji ekki vera plássfrekt,“ segir Sverrir Einarsson, útfararstjóri hjá Útfararstofu Íslands.

Í Bautasteini, málgagni Kirkjugarðasambands Íslands, var á dögunum birt samantekt á hlutfalli bálfara af heild útfara. Samantektin tekur til tímabilsins 2013 til 2018. Í ljós kom að hlutfallið var 28,6 prósent árið 2013, hækkaði svo í 35,3 prósent árið 2017 og 2018 rauk hlutfall bálfara upp í 39,8 prósent, sem er rétt tæplega tvær af hverjum fimm manneskjum sem kjósa bálför í stað hefðbundinnar útfarar.

Sverrir Einarsson útfararstjóri. Fréttablaðið/Anton Brink

Sverrir segir aukninguna stafa fyrst og fremst af því að umfjöllun um bálfarir er orðin meiri og betri. „Þegar ég byrjaði í þessu fyrir rúmum þrjátíu árum var miklu minni umfjöllun um bálfarir. Nú hefur fólk meiri aðgang að upplýsingum um hvernig þær fara fram.“

Sverrir segir að lengi vel hafi hlutfallsprósenta bálfara hangið í kring um 10-15 prósent. 

„Mér hugnast tilfinningin betur að verða brenndur en jarðsettur. Strax þegar ég byrjaði að vinna við útfararstjórnun ákvað ég að láta brenna mig. Það er í rauninni það eina sem ég hef farið fram á þegar ég fell frá, að fólkið mitt sjái til þess að ég verði brenndur.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.